„Að hluta er það kannski raunsæi. Það var ekki raunhæft að gera ráð fyrir því að við gætum framkvæmt jafn mikið og áður var áætlað,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í viðtali við Morgunblaðið í dag. Þar segir hann að leiða verði leitað til að ýta nýjum útgjöldum, sem átti að stofna til á næsta ári, yfir á árið 2024.
Dæmi um þær aðhaldsaðgerðir sem gripið verður til, til að draga úr þenslu í hagkerfinu og styðja Seðlabankann í hans aðgerðum, er að auka gjaldtöku á umhverfisvænum bílum. Engar meiriháttar breytingar verði gerðar á skattamálum en krónutöluskattar hækki þó í takt við verðlag.
„Afkoma ríkissjóðs er að lagast töluvert þessi misserin. hraðar en við gerðum áður ráð fyrir, sem skiptir miklu fyrir skuldastöðuna,“ segir Bjarni í viðtalinu.
„Það sem er sérstakt við fjárlagagerðina við þessar aðstæður er að við erum að koma úr djúpri efnahagslægð yfir í kraftmikinn hagvöxt. Þetta gerist á ofboðslega skömmum tíma. Áfram er það aðalmarkmið opinberu fjármálanna að ná niður verðbólgunni og stöðva skuldasöfnun.“
Verðbólgan nemur nú 9,7 prósentum en í ágústmánuði lækkaði ársverðbólga í fyrsta sinn frá því í fyrrasumar. Í júlímánuði nam verðbólgan 9,9 prósentum og lækkaði því um 0,2 prósent í ágúst.