Sænska blaðið Aftonbladet segir að ákvörðun um hádegisverðarfund þeirra Kristersson og Åkesson hafi verið tekin þegar í nótt. Segir blaðið að um sé að ræða viðræður um myndun nýrrar stjórnar.
Åkesson vildi lítið tjá sig við fjölmiðla þegar hann yfirgaf fundinn um hvað hafi verið rætt og lagði hann áherslu á að enn væri beðið eftir endanlegri niðurstöðu kosninganna.
Afar mjótt er á munum milli hægri blokkarinnar í sænskum stjórnmálum sem fær 175 þingsæti og vinstri blokkarinnar sem fær 174 þingsæti samkvæmt bráðabirgðatölum frá kjörstjórn, nú þegar búið er að telja um 95 prósent atkvæða í sænsku þingkosningunum sem fram fóru í gær.
Líklegt er að endanleg niðurstaða muni ekki liggja fyrir fyrr en á miðvikudag, eða jafnvel fimmtudag, en eins og staðan er nú munar um 47 þúsund atkvæði á blokkunum tveimur.
Allt bendir til að Svíþjóðardemókratar verði næststærsti flokkurinn á þingi, á eftir Jafnaðarmannaflokknum. Segir Åkesson að það sé markmið flokksins að eiga sæti í ríkisstjórn. Myndun slíkrar stjórnar gæti þó reynst erfið þar sem Frjálslyndir, einn flokkanna í hægri flokkinni, hafa sagt að þeir muni ekki styðja stjórn þar sem Svíþjóðardemókratar eiga sæti.
Johan Pehrson, formaður Frjálslyndra, gekk á fund Kristersson skömmu eftir að Åkesson yfirgaf skrifstofur Moderaterna. Hann vildi ekkert tjá sig að fundi loknum.