Arsenal tilkynnti um frestunina á heimasíðu sinni í dag. Ákvörðunin um að fresta leiknum var tekin í samráði við lögregluyfirvöld í Lundúnum, en leikurinn átti að fara fram á Emirates-leikvanginum, heimavelli Arsenal þar í borg.
Mikið álag er á lögreglunni vegna komandi jarðarfarar Elísabetar sem fer fram mánudaginn næsta, 19. september.
Í yfirlýsingu frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, segir að frestunin hafi verið „vegna verulegrar skerðingar á mönnun lögreglu og skipulagsvandræða tengda atburðum í kringum þjóðarsorg vegna hennar hátignar Elísabetar II drottningar,“.
Ekki er ljóst hvenær leikurinn fer fram en þá eru leikir í ensku úrvalsdeildinni næstu helgi einnig sagðir í uppnámi vegna skorts á lögreglumönnum til að manna þá leiki. Fjölmiðillinn Sky glímir sömuleiðis við mönnunarvanda vegna anna sökum andlátsins, en Sky Sports á samkvæmt plani að sýna átta leiki í ensku úrvalsdeildinni um helgina.