Þetta tilkynnti hún á blaðamannafundi á sjötta tímanum.
Eins og stendur eru hægriflokkar með 176 þingsæti en rauðgrænir, eða vinstriblokkin, eru með 173 þingmenn. Áætlað er að talningu ljúki í kvöld.
Andersson mun leiða starfsstjórn þar til ný stjórn tekur við, en heldur áfram sem formaður Jafnaðarmanna.
Hægriblokkin tók forystu í æsispennandi þingkosningum sem fram fóru á sunnudag. Miðað við útgönguspár var gert ráð fyrir því að vinstriblokkin héldi, en eins og stendur munar þremur þingsætum - hægrimönnum í vil. Jafnaðarmannaflokkurinn, flokkur Magdalenu Andersson, er stærsti flokkurinn með 30,4 prósent akvæða. Á eftir koma Svíþjóðardemókratar með 20,6 prósent eins og tölur standa.
Ekki er óhugsandi að illa gangi að mynda hægristjórn en myndun slíkrar stjórnar gæti reynst erfið þar sem Frjálslyndir, einn flokkanna í hægriblokkinni, hafa sagt að þeir muni ekki styðja stjórn þar sem Svíþjóðardemókratar eiga sæti.
Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, og Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Moderaterna, hafa hins vegar fundað í vikunni og sænskir fjölmiðlar segja viðræður hægriflokka um myndun nýrrar ríkisstjórnar vera hafnar.