Gunnar Karl glímdi við taugasjúkdóminn neurofibromatosis 1 (NF1) sem kallast taugatrefjaæxlager á íslensku. Einn af hverjum 4.500 einstaklingum fá þennan sjúkdóm en hann leggst mjög misjafnlega á fólk. Sjúkdómurinn lagðist afar þungt á Gunnar Karl.
Gunnar Karl þurfti að fara í fjölda aðgerða á ævi sinni, meðal annars á fótum, hrygg og mjöðm en þegar hann var sautján ára gamall var vinstri fótur hans tekinn af við hné.
Rætt var við Gunnar Karl um aðgerðina og árin fram að henni í Ísland í dag árið 2014.
Gunnar Karls var mikill baráttumaður fyrir málefnum fatlaðs fólks og var afar virkur í háskólapólitíkinni. Þar var hans helsta baráttumál bætt aðgengi fyrir fólk sem notast við hjólastól.
Í samtali við fréttastofu segir Hrefna Haraldsdóttir, systir Gunnars Karls, að með stofnun sjóðsins vilji fjölskylda hans halda helsta baráttumáli Gunnars Karls á lofti. Einstaklingar með fötlun geta sótt um styrk í sjóðinn vegna náms, tómstunda, íþróttaiðkunar eða annarra málefna sem styðja við þátttöku fatlaðra jafnt við aðra í samfélaginu.
Verndari sjóðsins er Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í fótbolta, en hann var einn þeirra sem fór tíu kílómetra í hjólastól í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2017 til styrktar Gunnari Karli.
Hægt er að lesa nánar um sjóðinn á heimasíðunni gunnarkarl.is. Þar er einnig hægt að sækja um styrki úr sjóðnum.
Minningarsjóður Gunnars Karls Haraldssonar:
Kennitala: 480922-0500
Reikningsnúmer: 0582-14-250994