Þetta kemur fram í aðsendri grein þeirra á Vísi, sem ber yfirskriftina „Konurnar segja ósatt og varaformaðurinn lætur hafa sig að fífli.“
Brynjólfur og Jón segja konurnar hafa sett ásakanir sínar fram „nauðbeygðar“, eins og það er orðað, í kjölfar yfirlýsinga varaformanns flokksins á Facebook.
Rétt er að konurnar stigu fram í kjölfar þess að varaformaðurinn, Guðmundur Ingi Kristinsson, sagðist myndu óska eftir stjórnarfundi eftir að hafa ítrekað borist fregnir þess efnis að kvenleiðtogar Flokks fólksins á Akureyri hefðu mátt sæta ótrúlega niðrandi og fyrirlitlegri framkomu.
Brynjólfur og Jón segjast meintir gerendur í málinu en þeir séu alsaklausir; þvert á móti hafi konurnar viljað Brynjólf frá í veikindaleyfi. Jón gengst við því að hafa barið í borð og krafist svara á einum fundi en það sé allt ofbeldið.
„Hvað varðar bréf oddvitans sem þær nefna og segja „hlaðið rógburði“ og öðrum ófögnuði þá höfum við skorað á þær að tilgreina allar þær „rangfærslur“ og „hótanir“ sem þar er að finna en ekki fengið svar,“ segja þeir Brynjólfur og Jón.
Þess ber að geta að fréttastofa hefur ítrekað óskað eftir að fá afrit af umræddu bréfi en ekki fengið.
„Að lokum um hið „kynferðislega áreiti“ sem „sumar okkar“ hafa orðið fyrir svo vitnað sé beint í skrif kvennanna. Okkur setur einfaldlega hljóða við þessi orð og áleitin spurning situr eftir: Hversu lágt getur mannskepnan lagst til að koma höggi á náunga sinn?
Við höfum þegar krafist þess af títtnefndum konum að þær taki ömurleg og mannorðs-skemmandi ummæli sín til baka, biðjist opinberlega afsökunar og geri það sem allra fyrst,“ segja mennirnir.
„Sú krafa er hér með ítrekuð.“