Vísir greindi nýverið frá því að hinn 23 ára gamli Mbappé, framherji París Saint-Germain sem og franska landsliðsins, hefði lent upp á kant við forráðamenn FFF. Deilurnar voru vegna ímyndunarréttar Mbappé, það er leikmaðurinn sjálfur og teymi hans vill fá frekari yfirráð yfir þeim á meðan sambandið vill halda hlutunum eins og þeir eru.
Núverandi samningur er þannig að Mbappé þarf að sinna ákveðnum skyldum þegar hann er á ferð og flugi með landsliðinu. Það þýðir að hann þarf að auglýsa þau fyrirtæki sem FFF hefur samið við, og það er Mbappé ósáttur með. Svo ósáttur að hann neitaði að mæta í myndatöku fyrir skyndibitakeðjuna með liðsfélögum sínum.
Samkvæmt samning KFC og FFF á Mbappé, ásamt þremur öðrum leikmönnum liðsins, að sitja fyrir og auglýsa kjúklingastaðinn. Þar sem Mbappé lét ekki sjá sig gæti farið svo að KFC leiti réttar síns í réttarsal. Alan Beral, aðstoðarframkvæmdastjóri keðjunnar í Frakklandi, staðfesti fyrir hönd KFC að þar sem ekki hefði verið staðið við gerða samninga þá myndi keðan ekki borga sambandinu þá upphæð sem um hafði verið samið.
Beral bætti svo við að skyndibitakeðjan gæti farið þá leið að kæra FFF fyrir að standa ekki við gerða samninga.
KFC have threatened the French Football Federation with legal action after Kylian Mbappe refused to promote them
— GOAL News (@GoalNews) September 21, 2022
Mbappé og félagar í franska landsliðinu mæta Austurríki í Þjóðadeildinni annað kvöld. Frakkland er í neðsta sæti A-riðils og tap myndi þýða að heimsmeistararnir gætu mögulega niður í B-deild Þjóðadeildarinnar.