Forsaga málsins er sú að Arnar Sverrisson, sálfræðingur, skrifaði grein sem birtist á Vísi árið 2020 með heitið: „Kynröskun stúlkna. Hin nýja „móðursýki““. Þar skrifaði hann um trans fólk og kynleiðréttingaraðgerðir. Hann sagði að „kynröskunarfaraldur“ hefði brotist út meðal unglingsstúlkna.
Arnar var mjög svo gagnrýndur fyrir grein sína, meðal annars af Óttari Guðmundssyni geðlækni, Elsu Báru Traustadóttur, sérfræðingi í klínískri sálfræði og réttarsálfræði, og Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur, fyrrverandi formanni Trans Íslands.
Arnar var síðað kærður til lögreglu í júní síðastliðnum af Tönju Vigdísardóttur, sem hafði svarað grein Arnars á sínum tíma.
Þegar Arnar greindi frá því að hann hafi verið kærður sagði hann að lögregla hafi í upphafi hafnað því að rannsaka málið en rannsókn hafi hafist að skipan ríkislögreglustjóra. Nú greinir hann frá því á Facebook að honum hafi verið tjáð að rannsókn málsins hafi verið felld niður.
„Svo virðist sem ríkissaksóknara og þrýstihópi kynskiptinga verði ekki að þeirri ósk sinni að vista mig á Hólmsheiðinni og hafa af mér sektarfé, því mér barst í fyrradag svofellt bréf frá lögreglustjóraembættinu á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann.