Kadyrov greindi frá því í færslu á Telegram að synir hans hefðu hlotið herþjálfun frá ungum aldri og að nú væri kominn tími til að þeir upplifðu alvöru átök, að því er kemur fram í frétt BBC.
Það er þó þvert á sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Rússland hefur undirritað og miðar að því að börn undir átján ára aldri taki ekki þátt í hernaðarátökum. Þá lítur Alþjóðasakamáladómstóllinn, ICC, á það sem stríðsglæp að börn undir fimmtán ára aldri taki þátt í hernaðarátökum, þó Rússar virði ekki þeirra lögsögu.
Kadyrov announced that he will send his underage children to war ASAP: Ahmat, 16, Eli (15), Adam (14).
— Anton Gerashchenko (@Gerashchenko_en) October 3, 2022
This means that Russia is legitimizing participation of underaged people in combat.
Every day I think that I've seen all of Russia's vice. But there really is no lowest point. pic.twitter.com/PJ9UKFdeks
Kadyrov er einn helsti stuðningsmaður Vladímír Pútíns Rússlandsforseta og hafa hersveitir Tétena barist í Úkraínu frá því að Rússar réðust þar inn í febrúar. Hann hefur þó gagnrýnt frammistöðu rússneska hersins, sérstaklega í Kharkív og Donetsk, og kallað eftir róttækari aðgerðum, þar á meðal beitingu kjarnorkuvopna.
David Petreaus, fyrrverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA og fjögurra stjörnu hershöfðingi, sagði í gær að Bandaríkin og bandamenn þeirra innan Atlantshafsbandalagsins myndu grípa til afgerandi aðgerða ef Rússar notuðu kjarnorkuvopn í Úkraínu.
Pútín innlimaði á föstudag fjögur héruð Úkraínu, Luhansk, Donetsk, Saporisjía og Kherson, í rússneska sambandsríkið en í ræðu sinni var hann harðorður í garð Vesturlandanna og hvatti Úkraínumenn til að hætta átökum sínum við Rússa og semja um frið.
Ráðamenn í Úkraínu hafa þó gefið það út að þeir muni ekki láta af árásum sínum gegn hersveitum Rússa.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi til þjóðarinnar í gærkvöldi að úkraínskar hersveitir hefðu náð að frelsa svæðin Arkhanhelske og Myrolyubivka í Kherson, að því er kemur fram í frétt Reuters. Áður hafði úkraínskum hersveitum tekist að frelsa bæinn Lyman í Donetsk.
Engin af fjórum héruðum sem Pútín innlimaði fyrir helgi eru alfarið á stjórn Rússa.