Innlent

Fólk ætti að búa sig undir raf­magns­leysi á morgun

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Fólk á Akureyri og öllu norðaustur horni landsins ætti að búa sig undir rafmagnsleysi í óveðrinu á morgun.
Fólk á Akureyri og öllu norðaustur horni landsins ætti að búa sig undir rafmagnsleysi í óveðrinu á morgun. vísir/vilhelm

Búist er við miklu ó­veðri fyrir norðan á morgun og hefur Veður­stofan fært appel­sínu­gula við­vörun á svæðinu upp í rauða. Mikill undir­búningur er í gangi á Akur­eyri til að koma í veg fyri flóða­á­stand líkt og skapaðist í bænum fyrir tveimur vikum. Mikil hætta er á raf­magns­leysi á svæðinu á morgun.

Stormi er spáð víða á landinu á morgun og voru gular og appel­sínu­gular við­varanir gefnar út alls staðar nema á höfuð­borgar­svæðinu í gær.

Versta veðrirð verður á Norður­landi eystra og hefur Veður­stofan fært við­vörunar­stig þar upp í rautt.

„Við erum að leggja loka­hönd á að skrifa það og við munum færa upp á rauðann á Norður­landi eystra og á Austur­landi að Glettingi þá um tíma í appel­sínu­gulu við­vöruninni,“ sagði Helga Ívars­dóttir veður­fræðingur sem frétta­stofa ræddi við eftir fund al­manna­varna í dag.

Við­varanirnar taka gildi í fyrra­málið og á ó­veðrið að standa fram á næstu nótt. Gert er ráð fyrir gríðar­legri rigningu - yfir 50 milli­metrum víða.

„Það er mjög mikil úr­koma. Á lág­lendi verður þetta meiri slydda. Þetta er svona ísingar­veður líka á línur þannig að það ætti að verða mikið álag á allar raf­línur. Þannig að raf­magns­leysi gæti verið í kortunum og fólk ætti að búa sig undir það,“ segir Helga.

„Og þetta er ekkert ferða­veður þannig að á meðan á þessu stendur verður ekkert hægt að ferðast um og það verða lokanir á vegum. Fólk á bara að búa sig undir vonsku­veður á morgun.“

Mikill undir­búningur á Akur­eyri

Veðrið veður verst nokkuð austur af Akur­eyri. Þrátt fyrir það hefur mikill undir­búningur átt sér stað í bænum svo sama á­stand skapist ekki og fyrir tveimur vikum þegar mikill sjór gekk á land og olli tjóni á nokkrum húsum.

„Við erum náttúru­lega bara búin að fara yfir frá­veituna, öll niður­föll og laga sjó­varnar­garða og bæta að­eins í þar. Og tryggja það að öll niður­föll séu í lagi,“ segir Ást­hildur Sturlu­dóttir, bæjar­stjóri Akur­eyrar.

Ó­venju sterkar lægðir ganga yfir svæðið þetta haustið.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

„Já, við erum vön því að veturinn komi með hvelli. En við höfum kannski meiri á­hyggjur af því að það verði raf­magns­leysi og ísingar­að­stæður eins og voru 2019, sem er á­kveðin hætta að verði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×