Parið hefur verið saman um nokkurt skeið og eiga soninn Magnús Berg sem kom í heiminn árið 2020. Þau kynntust innan veggja RÚV en voru upphaflega vinir áður en ástin tók völd.
Í dag starfar Vilhjálmur sem verkefnastjóri stafrænnar kennslu í Háskólanum í Reykjavík og Edda var nýlega tilnefnd sem sjónvarpsmaður ársins á Eddunni.
Byrjuðu sem vinir
„Hann tók mig svolítið svona upp á sinn arm og var svona minn helsti trúnaðarvinur. Svo bara þróaðist það pínu óvænt út í þetta,“ segir Edda um upphaf sambandsins í hlaðvarpinu Betri Helmingurinn sem kom út fyrr á árinu.
„Ég var samt alveg mjög hrædd við það fyrst, því þetta er náttúrlega hræðileg hugmynd, að byrja með eiginlega besta vini sínum og samstarfsmanni. Engin heilvita manneskja gerir það,“ sagði hún einnig. Þau bættu því þó við að ýmsir kostir hafi einnig fylgt því að byrja með besta vini sínum, þar sem þau hafi þekkst svo rosalega vel.
