Mikil úrkoma hefur verið í höfuðborginni í dag og síðdegis höfðu borgarstarsmenn í nógu að snúast við að hreinsa frá niðurföllum og koma vatninu til skila á sinn stað. Niðurföll höfðu ekki undan og flæddi inn í nokkur hús vestan Snorrabrautar í dag.
Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu rekstrar og umhirðu hjá Reykjavíkurborg, mætti í beina útsendingu í Kvöldfréttum Stöð 2 í kvöld til að fara yfir stöðuna.
„Helstu verkefnin voru hér í miðborginni, í Vesturbænum, inn í Laugardal og síðan í Árbæ og Breiðholti. Þetta ástand kom okkur pínulítið á óvart. Það rigndi mikið í skamman tíma og það sem gerist er að það safnast lauf í niðurföll, í ristar, í götunum sem veldur því að þau stíflast,“ sagði Hjalti.
Hvetur hann borgarbúa til að hreinsa lauf frá niðurföllum ef kostur er.
„Við viljum náttúrulega líka benda fólki á að hreinsa ef það hefur tækifæri til úr sínum niðurföllum í nánasta umhverfi en ef það ræður ekki við það að senda ábendingu á ábendingavef Reykjavíkurborgar,“ sagði Hjalti.
Hið mikla skýfall kom borgarstarfsmönnum nokkuð á óvart.
„Við bjuggumst ekki alveg við svona mikilli úrkomu á svona skömmum tíma en við undirbúum okkur alltaf mjögvel ef við vitum af svona veðri. Við förum í alla svokallaða lágpunkta, hreinsum frá niðurföllum og reynum að forða tjóni, svona almennt séð.“
Þýðir þetta að haustið er komið af fullum krafti í höfuðborgina?
„Haustið er mætt. Það er náttúrulega komið inn í miðjan október. Já, haustið er mætt með sínum rigningum og veseni. Eigum við ekki bara orða það þannig?“