Þetta er á meðal niðurstaðna fundar yfir fimmtíu ríkja sem skilgreina sig sem bandamenn Úkraínu vegna innrásar Rússa í landið.
Kanada, Frakkland og Holland munu senda ratsjár og eldflaugar sem munu efla loftvarnir Úkraínu. Bandaríkin höfðu þegar ákveðið að senda slíkan búnað til Úkraínu. Eitt slíkt kerfi frá Þýskalandi, hátæknilegt loftvarnarkerfi, kom til Úkraínu í gær, það fyrsta af fjórum. Það kallast IRIS-T og er hannað til að skjóta niður hraðskreið skotmörk eins og dróna og eldflaugar.
Að sögn ráðamanna í Úkraínu hafa Rússar sent yfir hundrað flugskeyti til Úkraínu á síðustu dögum, auk fjölmargra vopnvæddra dróna. Skotmörkin hafa verið allt frá mikilvægum orkuinnviðum til almennra borgara. Minnst nítján létust á fyrsta degi eldflaugasóknar Rússa.
Líklegt er talið að Bretar bætist í hóp ríkjanna sem munu senda herbúnað til að efla loftvarnir Úkraínu. Yfirvöld í Úkraínu hafa lengi kallað eftir slíkum búnaði svo skapa mætti eins konar loftvarnarskjöld yfir Úkraínu.
Hingað til hafa loftvarnir Úkraínumanna byggt á gömlum loftvarnarkerfum frá tímum Sovétríkjanna sem úkraínski herinn átti fyrir og vopnum sem bakhjarlar Úkraínu sendu í flýti í kjölfar innrásarinnar. Þar á meðal eru Stinger-flugskeyti og önnur sovésk loftvarnarkerfi frá öðrum ríkjum Austur-Evrópu.
Litlar breytingar hafa orðið á víglínunum í Úkraínu síðustu daga, eða síðan Úkraínumenn náðu töluverðum og hröðum árangri í bæði suðurhluta og austurhluta landsins. Harðir bardagar eru sagðir hafa átt sér stað víðsvegar í landinu þar sem Rússar eru sagðir hafa gert gagnárás gegn Úkraínumönnum í austri og Úkraínumenn eru sagðir hafa frelsað nokkur þorp í Kherson-héraði.