„Við væntum þess að það verði að meðaltali minna atvinnuleysi á næsta ári en í ár sem þýðir skort á vinnuafli á vissum landsvæðum myndi ég telja og neikvætt atvinnuleysi,“ segir Vignir Ö. Hafþórsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, en rætt var við hann í Morgunblaðinu í morgun.
Atvinnuleysi hefur ekki verið eins lítið síðan í desember 2018 en það mældist 2,8 prósent í september eins og áður segir. Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að atvinnuleysi hafi verið minnst á Norðurlandi eystra, eða 0,7 prósent. Þar á eftir á Austurlandi, 1,1 prósent, 1,2 prósent á Vesturlandi og 1,3 prósent á Vestfjörðum.
Þetta gefi til kynna að fólk vanti á þessi svæði. Óvíst er hvort mörg störf muni skapast á móti neikvæðu atvinnuleysi á næsta ári. Stór verkefni séu hins vegar að fara af stað, eins og innanvinna í nýjum Landspítala.
„Atvinnuleysið hefur minnkað hratt í byggingariðnaði og ferðaþjónustu á landsbyggðinni og það kæmi ekki á óvart ef sama yrði uppi á teningnum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Vignir við Morgunblaðið.