Truss baðst í gær afsökunar á mistökum ríkisstjórnar hennar í efnahagsmálum í viðtali við BBC í gærkvöldi en fullyrti að hún myndi áfram leiða Íhaldsflokkinn. Í morgun fundaði hún með ráðherrum ríkisstjórnarinnar þar sem Jeremy Hunt, nýr fjármálaráðherra Bretlands, fór meðal annars yfir umfangsmiklar niðurskurðs aðgerðir á útgjöldum hins opinbera.
Hunt kynnti í gær efnahagsaðgerðir sem snúa við nærri öllum aðgerðum sem ríkisstjórn Truss kynnti í fjárlagafrumvarpi fyrir nokkrum vikum. Hætt verður við boðaða skattalækkun á tekjuskatt úr 20 prósent í nítján, þak á orkuverði mun aðeins vera í gildi til sex mánaða en ekki í tvö ár.
Truss hefur aðeins verið í embætti í einn og hálfan mánuð en mikil ólga er sögð innan Íhaldsflokksins þar sem meðal annars hefur verið rætt að koma Truss frá og velja nýjan leiðtoga. Ekki eru þó allir sammála um að hvernig skyldi fara að því.
Að því er kemur fram í frétt BBC telja einhverjir innan flokksins að skipan Hunt og ný stefna í efnahagsmálum veiti henni örlítið meiri tíma og er beðið eftir frekari yfirlýsingum fjármálaráðherrans þann 31. október. Flestir eru þó sammála um að lítið svigrúm sé til frekari mistaka af hálfu Truss.
James Heappey, ráðherra herafla Bretlands, sagði í samtali við BBC í morgun að nú væri ekki tíminn til að breyta um leiðtoga og að koma þyrfti í veg fyrir niðurrif innan flokksins. Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur sömuleiðis kallað eftir því að Truss segi af sér og að ríkisstjórnin boði til kosninga.
"I'm sticking around because I was elected to deliver for this country"
— BBC Politics (@BBCPolitics) October 18, 2022
PM Liz Truss tells @ChrisMasonBBC she will lead the Conservatives into the next general electionhttps://t.co/5x7aSkEXTI pic.twitter.com/6FwHaGxfpd
Grunsamlegur pakki reyndist ekki sprengja
Lögreglan í Lundúnum lokaði í dag götunni Whitehall eftir að tilkynning barst um grunsamlegan pakka en í götunni má eru meðal annars utanríkis- og varnamálaráðuneytin staðsett. Þá er skrifstofa Liz Truss skammt frá.
Að því er kemur fram í frétt Reuters var tilkynnt um pakkann skömmu fyrir klukkan ellefu að íslenskum tíma en lögregla lokaði í kjölfarið veginum, girti svæðið af og flutti vegfarendur á brott.
Lögreglan í Westminster greindi frá því á Twitter um klukkutíma eftir að tilkynningin barst að pakkinn hafi ekki reynst grunsamlegur eftir allt saman. Viðstaddir heyrðu sprengingar á svæðinu þar sem lögregla var sögð hafa sprengt pakkann.