Gerrard tók við Aston Villa í nóvember á síðasta ári, en hann tók við af Dean Smith sem hafði verið látinn fara fjórum dögum áður.
Undir stjórn Gerrard hafnaði liðið í 14. sæti deildarinnar, þremur sætum neðar en árið áður, og verður tímabilinu best lýst sem kaflaskiptu.
Aston Villa hefur farið illa af stað undir stjórn þessa fyrrum miðjumanns Liverpool og enska landsliðsins á yfirstandandi tímabili, en liðið situr nú í 17. sæti deildarinnar með níu stig eftir ellefu leiki og það eina sem heldur liðinu frá fallsæti er markatalan.
Liðið hefur aðeins unnið tvo leiki á tímabilinu og kornið sem fyllti mælinn hjá forráðamönnum Aston Villa var 3-0 tap liðsins gegn Fulham fyrr í kvöld.
Aston Villa Football Club can confirm that Head Coach Steven Gerrard has left the club with immediate effect.
— Aston Villa (@AVFCOfficial) October 20, 2022
Steven Gerrard þarf vart að kynna fyrir aðdáendum enska boltans, en sem leikmaður lék hann 504 deildarleiki fyrir Liverpool og 114 leiki fyrir enska landsliðið á tæplega tuttugu ára löngum ferli.
Hann færði sig yfir í þjálfun fljótlega eftir að ferlinum lauk og tók þá við unglingaliði Liverpool áður en hann varð aðalþjálfari Rangers í skosku úrvalsdeildinni. Undir hans stjórn vann Rangers sinn fyrsta skoska meistaratitil í tíu ár.