Bannon er laus á meðan hægt er að áfrýja dómnum. Hann var einnig dæmdur til að greiða 6.500 dollara sekt, jafnvirði um 944 þúsund íslenskra króna, fyrir að vanvirða Bandaríkjaþing. Saksóknarar kröfðust sex mánaða fangelsisvistar yfir Bannon.
Afar fátítt er að einstaklingar séu sakfelldir fyrir að vanvirða Bandaríkjaþing. Washington Post segir að Bannon sé sá fyrsti í meira en hálfa öld.
Svonefnd 6. janúarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sóttist eftir vitnisburði Bannon um aðild hans að tilraunum Trump til þess að snúa við úrslitum forsetakosninganna árið 2020. Bannon hunsaði stefnu þess efnis að hann bæri vitni og afhenti gögn sem vörðuðu málið, að sögn AP-fréttastofunnar.
Lögmenn Bannon reyndu að færa rök fyrir því fyrir dómi að hann hafi ekki viljað bera vitni til þess að rjúfa ekki trúnað gagnvart þáverandi Bandaríkjaforseta sem Trump gerði tilkall til þegar Bannon var fyrst stefnt. Bannon var hins vegar aðeins almennur borgari þegar hann var í samskiptum við Trump um kosningaúrslitin og aðrir fyrrverandi embættismenn í stjórn Trump hafa gefið skýrslu fyrir nefndinni.
Bannon á það á hættu að vera dæmdur til enn lengri fangelsisvistar þar sem hann er ákærður fyrir peningaþvætti, fjársvik og samsæri í tengslum við fjáröflun fyrir landamæramúr Trump í New York. Saksóknarar saka Bannon um að blekkja þá sem lögðu fjáröfluninni lið. Megnið af söfnunarfénu hafi ekki farið í byggingu múrsins heldur í vasa hans og tveggja félaga hans.