Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Námskeiðið er haldið af félaginu í samvinnu við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Segir að starfsfólk geti einnig bókað sig í íslenskunám utan vinnutíma í boði Isavia kjósi það svo.
Staða íslenskrar tungu hefur mikið verið umræðunni síðustu misserin. Eiríkur Rögnvaldsson, professor emeritus í íslensku, er einn sem hefur blandað sér í umræðuna hefur lagt áherslu á að fyrirtæki og stofnanir leggi áherslu á að bjóða starfsfólki upp á íslenskukennslu á vinnutíma.
„Þess vegna væri upplagt að verkalýðshreyfingin gerði þá kröfu í væntanlegum samningum að erlendu starfsfólki yrði gefinn kostur á vandaðri íslenskukennslu í vinnutíma,“ sagði Eiríkur í grein á Vísi.
Í tilkynningunni frá Isavia segir að fyrsta námskeiðið hafi hafist þann 11. október síðastliðinn og standi í átta vikur. Í fyrsta námshópnum séu þrettán einstaklingar af fimm þjóðernum og komi úr mismunandi deildum innan Isavia samstæðunnar.

Hugmyndin kviknaði fyrir nokkru síðan
Haft er eftir Gerði Pétursdóttur, fræðslustjóra hjá Isavia, að hugmyndin af því að bjóða starfsfólki upp á íslenskunám í vinnutíma hafi kviknað fyrir allnokkru síðan og hafi verkefnið verið í þróun. „Það var svo snemma í haust að við náðum að hnýta alla enda og koma þessu af stað.“
Hún segir að Isavia leggi áherslu á að efla færni starfsfólks á ýmsum sviðum. Félagið vilji gefa öllu starfsfólki tækifæri til að vaxa í starfi og um leið auka veg íslenskunnar með þessum áþreifanlega hætti.
„Okkur finnst mikilvægt að geta boðið upp á þessa nýjung fyrir okkar fólk. Við teljum okkur vita að þetta komi að góðu gagni fyrir okkar hóp og vonandi samfélagið í heild.“