Leikirnir við Ísrael eru á laugardag og sunnudag og hefjast báðir klukkan 15. Í stað þess að leikið sé á Íslandi og í Ísrael sömdu handknattleikssambönd þjóðanna um að báðir leikirnir færu fram hér á landi.
Um er að ræða tveggja leikja einvígi um að komast í umspil um laust sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer eftir rúmt ár, en það verður haldið í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Íslensku stelpurnar unnu tvo sigra gegn Færeyjum ytra í vináttulandsleikjum um síðustu helgi. Vonir standa til þess að Hildigunnur Einarsdóttir komi inn í hópinn fyrir leikina við Ísrael eftir að hafa ekki farið með til Færeyja.
Í íslenska landsliðshópnum eru ungir nýliðar. Markvörðurinn Ethel Gyða Bjarnasen og leikstjórnandinn Elín Klara Þorkelsdóttir, sem voru í lykilhlutverki hjá U18-landsliðinu sem varð í 8. sæti á HM í sumar, voru báðar valdar í upphaflega hópinn um miðjan október.
Þriðji nýliðinn, Lilja Ágústsdóttir, sem einnig var í lykilhlutverki í U18-liðinu, var svo einnig kölluð inn í hópinn vegna meiðsla Unnar Ómarsdóttur. Áður hafði Katrín Tinna Jensdóttir, leikmaður Volda í Noregi, verið kölluð inn eftir að Lovísa Thompson og Berglind Þorsteinsdóttir drógu sig út úr hópnum.