Að virkja eiginleikann þýðir að þú getur 100% meira en annars og að þú sért hinn sterki ljósberi sem lýsir svo skært þann veg sem þú ert að fara í lífinu. Ef þú trúir því að þú sért ekki með afl til að gera eða að stjórna nokkrum sköpuðum hlut þá stendurðu eins og stytta á Austurvelli.
Það er svo mikið flæði í kringum þig og svo margir möguleikar, en það gerist ekkert nema þú teygir þig eftir því og gerir það sjálfur. Það hafa svo sannarlega verið mörg áföll í lífsbókinni þinni, en bestu kaflarnir eru eftir og sterkasta tímabilið. Þú aftengir þig fortíðinni með því að klippa á þann streng. Að sjálfsögðu er það ekki auðvelt og að sjálfsögðu finnst þér það vera auðvelt fyrir mig að segja það sé létt fyrir þig. Að þú sért það mikil manneskja og að það komi til þín lykillinn sem passar fullkomlega skránna að þeim breytingum sem þú vonaðist eftir.. kannski er það gömul von, eitthvað sem þig langaði fyrir löngu, en ef þú flækir þinn hug og þína sál í hið gamla þá fæðist ekkert af nýjum toga.
Þó að margt ergi þig, alveg inn að hjartarótum, þá er það samt eitthvað sem er utanaðkomandi og þú þarft að vera með það á hreinu að gefa því ekki leyfi. Við horfum á svo marga sem við höldum að allt sé svo ógurlega flott hjá svo mörgum. Það á jafnvel allt sem hugurinn girnist og hefur svo mikinn persónusjarma að þú skilur ekkert í því og þér finnst þú hafir engan möguleika á því að standa þar jafnfætis. Við erum hins vegar öll eins, þetta fólk sem þér sýnist hafi það svo gott er bara blekking. Þú getur fengið hvern sem þú þráir til að koma inn í líf þitt og núna er akkúrat tíminn til þess að opna á þær rásir sem hafa verið stíflaðar og að taka á móti hinu góða sem mætir þér. Þann áttunda nóvember er fullt tungl í Nautsmerkinu og tunglmyrkvi, allir þeir straumar sem þú getur sent út í Alheiminn koma til þín hraðar en orð fá lýst.
Knús og kossar, Sigga Kling