„Hann hefur gert garðinn frægan fyrir mismunandi raddbeitingu. Í upphafi var hann oftast þekktur fyrir það að leika kött en síðan hefur hann náð að taka óperulag og snýta því,“ sagði Idol kynnirinn Simmi þegar hann kynnti Pétur inn á svið.
Úrslitakvöldið snerist í kringum þær Hröfnu og Önnu Hlín sem stóðu tvær eftir í keppninni. Það má þó segja að Pétur Jóhann hafi ekki gefið þeim stöllum neitt eftir með flutningi sínum.
Pétur steig á stokk, hvítklæddur og vatnsgreiddur, og flutti hina heimsfrægu aríu Nessun dorma úr óperunni Turandot eftir Puccini. Atriði Péturs var úr sýningu sem hann var með í Borgarleikhúsinu á þessum tíma, Sannleikurinn.
Það vissu líklega fáir hvaða pípur þessi maður hefur að geyma. Hann gaf sig allan í flutninginn og virtist koma áhorfendum verulega á óvart.

Idol verður á Stöð 2 á föstudagskvöldum í vetur. Fleiri hundruð söngvarar spreyttu sig í áheyrnaprufunum en að lokum mun einn standa uppi sem sigurvegari. Fyrsti þáttur fer í loftið föstudagskvöldið 25. nóvember.