Í síðustu viku var greint frá því að meirihluti þingheims í Íran hefði undirritað opið bréf sem hvatti dómarastétt landsins til þess að sýna mótmælendum meiri hörku. 227 af 290 þingmönnum undirrituðu bréfið.
Mótmælin hófust í september eftir að fréttir bárust af því að 22 ára stúlka að nafni Mahsa Amini hefði látið lífið í haldið írönsku siðgæðislögreglunnar. Amini er sögð hafa verið handtekin af lögreglunni fyrir það að hafa ekki borið höfuðklút sinn á viðeigandi máta að mati lögreglunnar.
Þúsundir hafa verið handtekin síðan mótmælin hófust og er opna bréf þingheimsins nú að hvetja dómarastéttina til þess að kenna mótmælendum lexíu. Tugir mótmælenda hafa verið kærðir fyrir „fjandskap gegn Guði“ ásamt „spillingu á jörðu“ en þau brot beri með sér dauðadóm.
Mótmælandinn sem hefur nú verið dæmdur til dauða fyrir meinta íkveikju er ákærður fyrir „fjandskap gegn Guði“ (e. emnity against God) og dreifingu „spillingar á jörðu“ (e. corruption on Earth).
CNN greinir frá því að mótmælandinn hafi verið sakfelldur fyrir það að trufla stillingu almannareglu, friðar og samfélagsins ásamt því að skipuleggja glæp gegn þjóðaröryggi ásamt öðru.
Fimm aðrir mótmælendur eru sagðir hafa hlotið fimm til tíu ára fangelsisdóm.