Í ræðu sinni sagði Kristrún Bjarna „slá sig til riddara ef vel gengur með sölu á banka en hafna alfarið ábyrgð nú þegar ljóst er að þessi bankasala er eitt stórt klúður frá upphafi til enda.“
Þá tók hún fram að meira lægi undir málinu heldur en ráðherrastólar eða laskað traust til einstakra einstaklinga.
„Traust til stjórnmálanna hefur varla jafnað sig á þeim fjórtán árum sem liðin eru frá bankakrísunni. Traust til fjármálakerfisins er enn lágt. Það voru samþykkt sérlög um sölu ríkisins á eignarhlut í fjármálafyrirtækjum – sérstaklega til að fyrirbyggja þá stöðu sem nú er upp komin – til að auka traust. Til að skapa þá tilfinningu meðal almennings að tími fúsks, vanhæfni og klíkuskapar væri liðinn. Að fólk tæki verkefninu alvarlega.“
Óljóst hvernig valið var úr tilboðum
Þá benti Kristrún á að 83% þjóðarinnar voru óánægð með bankasöluna, samkvæmt skoðanakönnun Prósents síðasta vor.
„Þetta mál snýst um hæfni, ábyrgð, forystu. Ætlar enginn hér inni að taka ábyrgð á þessu klúðri?“
Á öðrum stað í ræðunni nefndi Kristrún að eftir útboðið á Íslandsbanka fyrr á árinu hafi „hrollur farið um fólk“ þegar sögur fóru að berast sem síðar voru staðfestar, um að fjölda smárra fjárfesta hefði verið hleypt að á afsláttarkjörum.
„Hlutur lífeyrissjóðanna var ekki yfirgnæfandi, heldur þriðjungur. Og einkafjárfestar með minni tilboð var hátt í þriðjungur af þeim sem var hleypt að afslættinum. Afsláttur sem nota bene er ekki meitlaður í stein í svona ferli – heldur svigrúm til að veita ef þörf er á.“
Þá sagði Kristrún að þjóðin hafi setið eftir með þá tilfinningu síðasta vor að óljóst hafi verið í hverja var hringt til að hleypa að þessum afsláttarkjörum, óljóst var hvernig valið var úr tilboðum og hvernig þau voru skert , til að mæta umframeftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum.
Kristrún endaði á því að spyrja hver tilfinning þjóðarinnar hafi verið í vor.
„Hún var: ekki opið ferli, ekki hæsta verð, ekki jafnræði, ekki gagnsæi. Hver er niðurstaða Ríkisendurskoðanda: Ekki hæsta verð, ekki jafnræði, ekki gagnsæi.“