Taugatitringur hefur gripið um sig á meðal Atlantshafsbandalagsríkja eftir að fregnir bárust af því að flugskeyti sem kom yfir landamærin að Úkraínu hefði fellt tvo í bæ í austanverðu Póllandi síðdegis í dag. AP-fréttastofan hafði eftir bandarískum leyniþjónustmanni að rússnesk flugskeyti hefðu lent í Póllandi. Það hefur þó ekki verið staðfest enn.
Viðbúnaður pólska hersins var aukinn í kjölfarið og meta stjórnvöld þar nú hvort þau eigi að virkja ákvæði stofnasáttmála NATO um samráð þegar öryggi aðildarríkis er ógnað. Stofnsáttmálinn gerir ennfremur ráð fyrir því að árás á eitt aðildarríki teljist árás á þau öll.
Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum að sendiherrar NATO-ríkja fundi á morgun að beiðni Pólverja.
Andrzej Duda, forseti Póllands, hefur meðal annars rætt við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, og Joe Biden Bandaríkjaforseta í kvöld. Leiðtogar Evrópusambandsins og annarra NATO-ríkja hafa lýst þungum áhyggjum af vendingunum.
Í tísti sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sendi frá sér í kvöld lýsti hún fréttunum frá Póllandi sem áhyggjuefni.
„Ísland stendur með pólsku þjóðinni og við fylgjumst grannt með atburðum,“ tísti hún.
Alarming news from Poland where innocent lives have been lost. Iceland stands with the people of Poland and we are monitoring events closely.
— Katrín Jakobsdóttir (@katrinjak) November 15, 2022
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, tísti á svipuðum nótum í kvöld. Sendi hún Pólverjum samúðarkveðjur vegna mannfallsins í því sem hún sagði ógnvekjandi sprengingum þar.
Our condolences to those who have lost loved ones in the frightening explosions in Poland today. We will monitor the situation closely as the facts emerge.
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) November 15, 2022
Ríkisútvarpið segir að upplýsingafundur með fulltrúum utanríkisráðuneytisins og utanríkismálanefnd Alþingis vegna atburðanna í Póllandi verði haldinn í fyrramálið.