Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við fréttastofu.
„Við erum að tala um hátt í þrjátíu manns sem að tengjast þessu að einhverju leyti eða voru þarna og tóku þátt í þessu,“ segir Margeir.
Heimildir fréttastofu herma að margir þeirra hafi starfað sem dyraverðir í miðbænum og tengist sama öryggisfyrirtæki. Þetta vill Margeir þó ekki staðfesta en segir lögreglu telja sig vita hverjir hafi verið að verki.
Mættu grímuklæddir og þustu á neðri hæð klúbbsins
„Við teljum okkur vera búin að ná nokkuð vel utan um það hverjir þetta eru og nú fara bara næstu dagar í það að hafa upp á þeim og ná í þá. Og ég vil nú nota tækifærið og skora á þá að setja sig í samband við lögreglu, þá sem voru þarna og tóku þátt í þessu.“
Mennirnir réðust grímuklæddir inn á skemmtistaðinn um klukkan hálf tólf í gærkvöldi og héldu inn í gegn um staðinn og niður á neðri hæð hans. Þar fundu þeir fyrir þá þrjá sem þeir leituðu að og stungu þá ítrekað með hnífum. Mennirnir þrír voru fluttir á bráðamóttöku og eru ekki í lífshættu.
Margeir segir það til skoðunar hvað hafi legið að baki árásinni. Hún er rannsökuð sem tilraun til manndráps.
„Það er alveg klárt mál að þessi atlaga er skipulögð. Hvort að þetta sé hópur eða hópar sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi er bara eitthvað sem við komum til með að skoða líka en ég get ekkert sagt til um það núna á þessu stigi. Því við leggjum allt í sölurnar við að hafa upp á þessum mönnum og það er eiginlega staðan núna.“
Mennirnir sem eru grunaðir um að hafa tekið þátt í árásinni eru í kring um tvítugt og upp úr.