Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, við fréttastofu.
„Í heildina höfum við farið í fjórtán handtökur. Einn er laus og það má búast við að fleirum verði sleppt í dag því við teljum ekki að þátt þeirra vera það mikinn í þessu,“ segir Margeir.
Alls eru hátt í þrjátíu taldir tengjast árásinni og leitar lögregla enn hinna sem hafa ekki verið handteknir enn, um tíu til fimmtán manna.
„Það voru handteknir fjórir í gærkvöldi og í nótt. Einn af þeim gaf sig fram við lögreglu eftir áskorun lögreglu. En það er ekki búið að taka afstöðu [um gæsluvarðhaldskröfu] til þeirra en það er að fara fram skýrslutökur og þá kemur í ljós hvað verður með framhaldið,“ segir Margeir.
„Við erum enn að leita hinna og við hættum þeirri leit ekkert fyrr en allir eru komnir í hús. Það er bara staðan.“
Æddu vopnaðir og grímuklæddir inn
Fimm voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærkvöldi. Þrír þeirra voru úrskurðaðir í tveggja vikna varðhald en tveir í vikulangt varðhald.
Mennirnir eru taldir hafa ætt inn grímuklæddir á skemmtistaðinn Bankastræti Club síðasta fimmtudagskvöld og ráðist að þremur mönnum á neðri hæð staðarins og stungið þá ítrekað.
Tveir þeirra sem lentu í árásinni opnuðu sig um hana í dag:
Hafa náð vel utan um málið
Megináhersla lögreglu hefur verið lögð á að hafa upp á öllum sem taldir eru hafa komið að árásinni.
„Samhliða höfum við verið að átta okkur á árásinni og hlutverki hvers og eins. En við höfum lagt mikla áherslu á að finna þessa menn og koma þeim hingað í hús. Og það er bara eitthvað sem við höldum áfram með þangað til við erum búin að ná öllum,“ segir Margeir.
Rannsóknin sé á frumstigi en hafi gengið vel. Hann telur ekki tímabært að ræða hvað gæti hafa legið að baki árásinni.
„Það má segja að málið sé bara rétt á frumstigi þó að við höfum svona verið að ná tiltölulega vel utan um það samt sem áður.“