Það var prúðbúinn táningsdrengur með teina sem mætti til leiks á Hótel Loftleiðir fyrir sautján árum síðan. Tveimur árum áður hafði hann tekið þátt í Rímnaflæði, þar sem hann var valinn efnilegasti rapparinn.
Nú var hann orðinn 16 ára gamall og hafði því aldur til þess að taka þátt í ennþá stærri keppni, Idol Sjörnuleit. Gauti var þó ekki mættur til þess að syngja, heldur ætlaði hann sér að heilla dómnefndina með rappi eins og honum einum er lagið.
Hvöttu hann til þess að halda áfram að rappa
„Ferlega flott en þetta á ekki heima í þessari keppni. En ég segi í guðanna bænum ekki hætta, við þurfum á svona fólki að halda. Takk fyrir,“ sagði dómarinn Bubbi Morthens.
Dómnefndin var heilluð en virtist sammála um að rapp ætti ekki heima í þessari keppni. „Þú ert í vitlausri keppni. Þú átt að fara í leiklistarskólann eða halda áfram á þessari braut. Áfram með þig, en sorrí nei,“ sagði dómarinn Páll Óskar.
Átti seinna eftir að vinna með dómurunum
Emmsjé Gauti átti kannski ekki heima í Idol Stjörnuleit en í dag er hann einn vinsælasti tónlistarmaður landsins.
Þess má til gamans geta að dómararnir Sigga Beinteins og Páll Óskar hafa verið gestir Gauta á árlegum jólatónleikum hans. Þá fékk hann Bubba Morthens til þess að spila í brúðkaupinu sínu nú í sumar.
Gauti virðist því ekki erfa það neitt sérstaklega við dómnefndina að hafa ekki hleypt sér áfram í Idolinu á sínum tíma.
Þá tilkynnti Gauti um helgina að hann væri kominn í samstarf með Idol kynninum Jóhannesi Ásbjörnssyni, sem var annar helmingur tvíeykisins Simma og Jóa. Í tilefni þess rifjaði hann upp þeirra fyrstu kynni, fyrir sautján árum síðan, með skemmtilegri mynd á Instagram.

Idol verður á Stöð 2 á föstudagskvöldum í vetur. Fleiri hundruð söngvarar spreyttu sig í áheyrnaprufunum en að lokum mun einn standa uppi sem sigurvegari. Fyrsti þáttur fer í loftið föstudagskvöldið 25. nóvember.