Innlent

Fyllir í skarð Mugga í Ísa­fjarðar­höfn

Atli Ísleifsson skrifar
Hilmar Kristjánsson Lyngmo hefur starfað um árabil hjá Ísafjarðarhöfn. Hann hefur nú verið ráðinn hafnarstjóri.
Hilmar Kristjánsson Lyngmo hefur starfað um árabil hjá Ísafjarðarhöfn. Hann hefur nú verið ráðinn hafnarstjóri. Ísafjarðarbær

Hilmar Kristjánsson Lyngmo hafnarvörður hefur verið ráðinn sem hafnarstjóri hjá höfnum Ísafjarðarbæjar og mun hann hefja störf sem slíkur í ársbyrjun.

Hilmar mun taka við starfinu af Guðmundi Magnúsi Kristjánssyni, einnig þekktur sem Muggi, sem lætur af störfum um áramótin eftir um tuttugu ára starf.

Á vef Ísafjarðarbæjar segir að Hilmar sé menntaður vélfræðingur og skipstjóri með rafvirkjamenntun, meirapróf og vinnuvélaréttindi.

„Hilmar lauk B-námi til skipstjórnar (SSB) frá Menntaskólanum á Ísafirði 2021. Hann lauk burtfararprófi í rafvirkjun frá Tækniskólanum 2019, var við nám í Iðnskólanum á Ísafirði 1979-1981 og Vélskóla Íslands 1981-1983 og náði sér þar í vélstjórnarmenntun. Árið 1997 lauk hann sveinsprófi í vélsmíði og varð þá vélfræðingur.

Frá 2018 hefur Hilmar starfað hjá höfnum Ísafjarðarbæjar sem hafnarvörður, vélstjóri og skipstjóri og sem staðgengill hafnarstjóra,“ segir um ráðninguna á Hilmari.

Í viðtali við Vísi í haust sagðist Guðmundur Magnús ætla að kveðja með flugeldasýningu á gamlársdag og að fyrsta verkefni hans eftir starfslok verði að læra á básúnu.


Tengdar fréttir

Kveður eftir tuttugu ár sem hafnar­stjóri

Guðmundur Magnús Kristjánsson hefur starfað sem hafnarstjóri hjá höfnum Ísafjarðarbæjar síðastliðin tuttugu ár. Nú er komið að starfslokum og ætlar Guðmundur að kveðja með flugeldasýningu á gamlársdag. Fyrsta verkefni eftir starfslok verður að læra á básúnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×