Fótbolti

Felix vill yfir­gefa Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
João Félix biður til æðri máttarvalda í von um að komast frá Atlético Madríd.
João Félix biður til æðri máttarvalda í von um að komast frá Atlético Madríd. Jose Breton/Pics/Getty Images

Portúgalski landsliðsmaðurinn João Félix hefur fengið nóg af bekkjarsetunni hjá Atlético Madríd og vill yfirgefa félagið þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar.

Hinn 23 ára gamli Felix er staddur í Katar þar sem HM í fótbolta fer nú fram. Skoraði hann meðal annars eitt marka Portúgals í 3-2 sigrinum á Ghana. Hann hefur mátt þola mikla bekkjarsetu hjá Atlético og hefur því beðið umboðsmann sinn um að finna nýtt lið fyrir sig þegar glugginn opnar. Spænski miðillinn Marca greinir frá.

Felix varð dýrasti leikmaður í sögu Atlético þegar hann var keyptur sumarið 2019 á 126 milljónir evra. Það vakti athygli þegar Felix valdi Atl. Madríd fram yfir önnur lið þá en Diego Simeone, þjálfari liðsins, er hrifinn af stífum varnarleik á meðan Felix er léttleikandi sóknarmaður sem myndi eflaust njóta sín þar sem hann fengi meira frjálsræði.

Jorge Mendes, umboðsmaður Felix, virðist hafa sannfært Atlético um að leyfa leikmanninum að fara í janúar ef nægilega gott tilboð berst. Það ætti ekki að vera vandamál þar sem Bayern München, Chelsea, Manchester United og Paris Saint-Germain eru samkvæmt Marca öll tilbúin að opna veskið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×