Senegal heiðraði minningu Diop á besta mögulega hátt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kalidou Koulibaly tryggði Senegal verðskuldaðan sigur.
Kalidou Koulibaly tryggði Senegal verðskuldaðan sigur. Clive Mason/Getty Images

Ekvador var með stigi meira en Senegal fyrir leik og ljóst að þeim myndi duga jafntefli til að fylgja Hollandi áfram í 16-liða úrslit. Senegal dyggði ekkert nema sigur.

Meðvitaðir um það hófu Senegalar leikinn af töluverðum krafti og fengu tvö upplögð marktækifæri á fyrstu tíu mínútum leiksins. Idrissa Gueye, sem var í dag að jafna landsleikjamet Henri Camara fyrir Senegal í sínum 99. landsleik, klikkaði á fyrra færinu og framherjinn Boulaye Dia á því síðara.

Senegal var umtalsvert hættulegri aðilinn gegn Ekvadorum sem virtust nálgast leikinn með það fyrir augum að sækja jafnteflið sem myndi duga þeim áfram. Það dró hins vegar til tíðinda á 42. mínútu.

Sarr kom Senegal yfir.Maddie Meyer - FIFA/FIFA via Getty Images

Ismaila Sarr, kantmaður Watford á Englandi, geystist þá inn á teig Ekvador þar sem Piero Hincapié óð inn í hlið hans og var réttilega dæmdur brotlegur. Vítaspyrna var dæmd og Sarr skoraði af punktinum.

Senegal leiddi því verðskuldað 1-0 í hléi.

Ekvador ósannfærandi en jafnaði

Gustavo Alfaro, þjálfari Ekvador, gerði tvær skiptingar í leikhléi þar sem ljóst var að Ekvadorar þurftu að endurskoða nálgun sína.

Eftir hæga byrjun á síðari hálfleik tókst Ekvadorum svo að jafna þar sem Senegalar voru algjörlega týndir í dekkningu eftir hornspyrnu. Moises Caicedo var aleinn og yfirgefinn á fjærstönginni hvar hann lagði boltann í netið af stuttu færi á 68. mínútu.

Minna en tveimur mínútum síðar fékk Senegal aukaspyrnu úti á kanti á miðjum vallarhelmingi Ekvador. Idrissa Gana Gueye gaf fyrir markið hvar boltinn hrökk af varnarmönnum Ekvador fyrir fætur Kalidou Koulibaly sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið og kom Senegal strax aftur í forystu á 70. mínútu.

Koulibaly var með töluna 19 á fyrirliðabandi sínu til heiðurs Diop sem bar töluna á landsliðsferli sínum.James Williamson - AMA/Getty Images

Gert fyrir Diop

Ekvadorar ógnuðu gott sem ekkert eftir markið og tókst ekki að jafna. Senegal vann leikinn 2-1 og er komið áfram í 16-liða úrslit á kostnað þeirra ekvadorsku. Holland vinnur riðilinn með sigri sínum á Katar á sama tíma.

Senegölum var tíðrætt um Papa Bouba Diop í aðdraganda leiksins. Diop lést aðeins 42 ára aldri á þessum degi fyrir tveimur árum. Diop lést eftir baráttu við ALS, einnig kallað Lou Gehrig-sjúkdómurinn.

Diop spilaði til að mynda með Fulham og Portsmouth um árabil í ensku úrvalsdeildinni og þá skoraði hann fyrsta HM-mark í sögu Senegal er liðið vann ríkjandi heimsmeistara Frakka árið 2002.

Diop treyjur og myndir voru margar í stúkunni.James Williamson - AMA/Getty Images

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira