Eins og frægt er lögðu starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) hald á mikið magn opinberra og leynilegra gagna í Mar-a-Lago, sveitaklúbbi og heimili Trumps í Flórída, þegar húsleit var gerð þar í ágúst. Trump vill meina að hann eigi muni og gögn sem hald var lagt á og einnig að trúnaður ríki um önnur gögn.
Lögum samkvæmt hefði Trump átt að afhenda Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna öll opinber gögn í hans vörslu er hann flutti úr Hvíta húsinu í janúar í fyrra.
Hefur hægt á rannsókninni í þrjá mánuði
Í kjölfar þess sóttist Trump eftir því að utanaðkomandi aðili yrði fenginn til að fara yfir gögnin sem hald var lagt á og kanna hvort einhver af þeim um þrettán þúsund skjölum sem hald var lagt á, væru í persónulegri eigu Trumps, en hald var lagt á skjöl Trumps sem voru geymd með ríkisgögnum.
Lögmenn Trumps leituðu til dómarans Aileen Cannon í Flórída, sem skipuð var af Trump og féllst hún á kröfu þeirra en sú ákvörðun hefur komið verulega niður á rannsókn Dómsmálaráðuneytisins og hægt á henni í þrjá mánuði.
Úrskurður Cannon þótti strax mjög umdeildur og sérfræðingar ytra sögðu hann jafnvel vera aðhlátursefni. Sérstaklega þar sem hún sagði í úrskurði sínum að orðspor Trumps væri í húfi.
Sjá einnig: Krafa Trumps samþykkt af dómara sem hann tilnefndi
Fram hefur komið að af þessum þrettán þúsund skjölum eru um hundrað þeirra ríkisleyndarmál og sum þeirra sögð mjög mikilvæg leyndarmál.
Sjá einnig: Háleynileg gögn um Íran og Kína á heimili Trumps
Úrskurður Cannon fól í sér að rannsakendur Dómsmálaráðuneytisins hafa ekki mátt nota skjöl sem ekki eru leynileg við rannsókn þeirra á flutningi skjalanna til Flórída, jafnvel þó þau séu flest öll ríkiseign. Rannsakendur ráðuneytisins hafa sagt öll gögnin mikilvæg og það hvernig þau hafi verið geymd í Mar-a-Lago.
Gagnrýndu upprunalega úrskurðinn
Dómararnir þrír í áfrýjunardómstólunum voru allir skipaðir af forsetum úr Repúblikanaflokknum og þar af eru tveir sem Trump sjálfur skipaði. Sá þriðji var skipaður af George W. Bush. Þeir skrifuðu allir undir úrskurðinn sem birtur var í gærkvöldi en þar gagnrýndu þeir Cannon og úrskurð hennar, eins og fram kemur í frétt New York times.
Dómararnir sögðu meðal annars að Cannon hefði í rauninni aldrei haft umboð til að meina rannsakendum ráðuneytisins um aðgang að gögnunum og hún hefði ekki haft nokkuð tilefni til að koma fram við Trump með öðrum hætti en aðra bandaríska einstaklinga sem húsleit hefur verið gerð hjá.
„Það er svo sannarlega óvanalegt að húsleit sé gerð hjá fyrrverandi forseta,“ skrifuðu dómararnir þrír. Þeir sögðu það þó ekki hafa áhrif á framfylgd laganna, né gæfi það dómurum vald til að grípa inn í yfirstandandi rannsókn áður en ákæra hefði verið gefin út.
Trump getur áfrýjað úrskurði dómaranna þriggja til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Þar á bæ var nýlega úrskurðað gegn Trump í máli um skattaskýrslur hans.
Ein af þremur rannsóknum
Þessi tiltekna rannsókn ráðuneytisins er ein af þremur mikilvægum glæparannsóknum sem beinast gegn forsetanum. Hann er einnig til rannsóknar vegna aðkomu hans að tilraunum til að snúa niðurstöðum forsetakosninganna 2020 og árásarinnar á þinghúsið þann 6. janúar í fyrra.
Merric Garland, dómsmálaráðherra, skipaði nýverið sérstakan rannsakanda til að halda utan um þessar tvær rannsóknir og var það gert eftir að Trump tilkynnti að hann ætlaði að bjóða sig aftur fram til forseta.
Þá eru saksóknarar í Fulton-sýslu í Georgíu með Trump til rannsóknar vegna meintra afskipta hans og bandamanna hans af forsetakosningunum þar árið 2020.
Þar til viðbótar stendur Trump frammi fyrir fjölmörgum öðrum rannsóknum og dómsmálum. Hann hefur meðal annars verið sakaður um fjársvik í New York og kærður fyrir nauðgun.