Skoðun

Skýr skref í þágu lög­gæslunnar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir skrifar

Við höfum öll orðin vör við aukna hörku og breyttar aðstæður í glæpastarfsemi á Íslandi. Síðustu vikur hafa fregnir af hrottalegum árásum og auknum umsvifum glæpasamtaka verið daglegt brauð. Lögreglan gerir allt sem hún getur með þann mannafla og þá tækni sem hún hefur í höndum sér, en þó sjáum við íbúa óttaslegna við þróun skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi. Með stöðugri þróun glæpasamtaka, t.d. með aukinni notkun internetisins, hefur reynst sífellt erfiðara að rannsaka starfsemi þeirra og fara í viðeigandi aðgerðir. Það er öllum ljóst að taka þurfi á þessum málaflokki af krafti og styðja löggæsluna í sínum viðbrögðum við nýjan veruleika. Til þess að halda uppi reglu og koma í veg fyrir glæpi þarf að stíga ákveðin skref í rannsóknum, greiningum og viðbrögðum.

Löggæslan komin að þolmörkum

Allir fasar löggæslunnar eru komnir að þolmörkum. Lögreglustjórar hafa þurft að hagræða hverri krónu, lögreglan er undirmönnuð og fangelsin þarfnast umbótunar. Verkefnin eru fjölmörg og við þurfum að klára þau svo að hægt sé að bregðast við breyttum aðstæðum af ákveðni. Ríkisstjórnin hefur brugðist við þessu með auknum fjárveitingum til almennrar löggæslu, Landhelgisgæslunnar og fangelsanna. Með auknum fjárveitingum geta viðbragðsaðilar okkar og rannsakendur verið betur í stakk búnir til að mæta sífellt flóknari verkefnum.

Sjaldséð aukning

Ríkisstjórnin hyggst auka fjárframlög um 2,5 milljarða króna frá því sem upphaflega var áætlað. Af þessu eiga 900 milljónir króna að fara í aukið öryggi, aukinn viðbragðstíma og málsmeðferðarhraða og 500 milljónir í sérstakar aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta eru skýr skilaboð frá ríkisstjórninni að styðja skuli við löggæslu landsins. Slíkur stuðningur við löggæsluna hefur ekki sést í langan tíma, marga áratugi, og gerir okkur kleift að bregðast við ástandinu í dag af krafti.

Mikilvægi frumkvæðislöggæslu

Ásamt þessu mun lögreglan geta unnið enn frekar í þágu forvarna. Oft er horft fram hjá mikilvægi forvarnarstarfs lögreglunnar, en bestu aðgerðirnar eru fyrirbyggjandi aðgerðir. Með öflugu forvarnarstarfi er hægt að koma í veg fyrir að ungmenni taki ranga beygju á lífsleiðinni. Það er ungmennum og samfélaginu í heild til hagsbóta.

Undirrituð fagnar því að efla skuli löggæslu landsins og tryggja það að við Íslendingar búum í enn öruggara landi.

Höfundur er þingmaður Framsóknar.




Skoðun

Sjá meira


×