Borgarstjórn ákvað á fundi sínum fyrr í vikunni að leggja niður starfsemi Vinjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir, sem hluta af sparnaðaraðgerða borgarinnar. Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, gagnrýnir borgina fyrir skort á samráði og segir ákvörðunina skjóta skökku við.
„Það sem við söknum fyrst og fremst er bara samtal og samráð um þessar hugmyndir áður en þær koma fram af því að við vissum ekkert af þessu fyrr en þetta kom fram í fyrradag,“ segir Héðinn. „Borgin talar um samtal og samráð um að leysa þessi úrræði en það hefur ekkert verið.“
Vin er eitt fjögurra úrræða í fjórum sveitarfélögum sem sinna einstaklingum með geðraskanir, hin eru Lækur í Hafnarfirði, Dvöl í Kópavogi og Laut á Akureyri, en þau voru sett á fót í kringum aldamótin af Rauða krossinum.
Fyrir ári síðan voru lagðar fram tvær sviðsmyndir fyrir starfsemina, annað hvort yrði þjónustan samþætt eða starfsemin lögð niður. Að sögn Héðins átti sér þó ekki stað frekari umræða eftir það.
Fólk sem hafi jafnvel aðeins þetta eina úrræði
Reykjavíkurborg tók við rekstrinum í sumar en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að næsta skref eftir ákvörðunina um að leggja starfsemina niður væri að eiga samtal við Geðhjálp og öðrum um hvernig hægt væri að þjónusta hópinn með öðrum hætti. Ekki var þó samtal um þau mál fyrir fram.
„Þetta er þjónusta fyrir 20 til 30 manns á dag og þessir einstaklingar þurfa hlutverk og virkni til að rjúfa félagslega einangrun, og það er náttúrulega ómögulegt að það sé staðið að þessu með þessum hætti, að þetta gerist bara einn tveir og þrír og það sé ekkert samtal við hagsmunarsamtök þessara einstaklinga,“ segir Héðinn.
Hann bindur þó vonir við að samtalið verði meira á næstunni og segir mikilvægt að tryggja þjónustu fyrir þá einstaklinga sem þurfa á henni að halda, hvort sem það verði áframhaldandi starf Vinjar eða önnur úrræði.
„Það þarf bara að taka samtal um þetta áður en að svona ákvarðanir eru teknar sem hafa áhrif á líf fólks sem að hefur kannski bara þetta eina úrræði til að styðjast við, eins og dagurinn svolítið hverfist um það á hverjum degi að mæta á einn stað og hitta fólk og þar fram eftir götum. Það þarf eitthvað aðeins að forvinna þessar ákvarðanir betur og eiga samtalið fyrr,“ segir Héðinn.