Mikil umræða skapaðist á Alþingi í dag í kjölfar þess að útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra var sett á dagskrá í fimmta sinn. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu ekki bara frumvarpið heldur tímasetningu þess. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, flutti tillögu að dagskrárbreytingu og vildi salta málið fram yfir áramót.
„Í því ljósi er í rauninni óskiljanlegt að forseti tefli í tvísýnu farsælum lokum þingársins með því að setja útlendingafrumvarpið á dagskrá á þessum tímapunkti. Mál sem er hvorki brýnt né háð sérstakri tímasetningu“, sagði Andrés á alþingi í dag.
Andstaða stjórnarandstöðunnar við frumvarpið er ekki ný af nálinni og eitt þeirra atriða sem helst hefur verið gagnrýnt er heimild stjórnvalda til þess að fella niður rétt fólks til heilbrigðisþjónustu ef þau eru enn á landinu 30 dögum eftir lokasynjun.
Þá gerði meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar breytingartillögu við frumvarpið sem felur í sér að fólk sem ekki tókst að vísa á brott vegna heimsfaraldurs kórónuveiru fái möguleika til þess að sækja um dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþáttöku í stað þess að sækja um alþjóðlega vernd. Ekki er ljóst á þessu stigi hversu margir falla undir þessa nýju breytingu.
Annar þingmaður Pírata, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, segir málið tefja fyrir öðrum mikilvægum málum sem væri brýnt að afgreiða sem fyrst.
„Ég er svona að reyna að sjá hvað þeim gengur til. Vegna þess að á meðan við erum að ræða þetta mjög svo umdeilda mál þá bíða öryrkjar eftir eingreiðslunni sinni sem allir eru sammála um. Við erum öll sammála um það.“