„Ástandið í Odesa er mjög erfitt,“ sagði Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, í ávarpi sínu til þjóðarinnar í nótt. Að sögn Selenskí hafa yfirvöld í Noregi sent hundrað þúsund dali til að endurbyggja orkuinnviði landsins.
Að því er kemur fram í frétt Reuters um málið greindi talsmaður stjórnvalda í Odesa frá því að rafmagni verði komið aftur á næstu dögum en að það muni taka tvo til þrjá mánuði að laga orkukerfið að fullu.
The situation in Odesa region is very difficult. After the night strike by Iranian drones, Odesa and other cities and villages of the region are in the dark. So far, more than 1.5 million people in Odesa are without electricity - @ZelenskyyUa pic.twitter.com/cuTwD8MPm9
— Anton Gerashchenko (@Gerashchenko_en) December 10, 2022
Í Facebook færslu, sem var síðan eytt, var fólk hvatt til að flýja borgina en talsmaðurinn segir stjórnvöld í borginni ekki hafa beint því til borgara.
Rússar hafa síðustu mánuði einblínt á orkuinnviði í Úkraínu og er árásin í Odesa nýjasta útspilið en íranskir drónar voru notaðir við árásina. Úkraínski herinn sagði á Facebook að fimmtán drónar hafi stefnt á skotmörk í Odesa og Mykolaiv en að tíu hafi verið skotnir niður.
Latest Defence Intelligence update on the situation in Ukraine - 10 December 2022
— Ministry of Defence (@DefenceHQ) December 10, 2022
Find out more about the UK government's response: https://t.co/32IwfHj0a1
#StandWithUkraine pic.twitter.com/gT1KKRBrap
Varnamálaráðuneyti Bretlands telur líklegt að hernaðarlegur stuðningur Írana við Rússa muni aukast á næstu mánuðum.
Einblína á austurhluta Úkraínu
Rúmlega níu mánuðir eru nú liðnir frá því að innrás Rússa inn í Úkraínu hófst en Selenskí sagði í ávarpi sínu í nótt að staðan væri áfram mjög erfið á mörgum svæðum í austurhluta landsins þar sem Rússar hafa verið að sækja fram af miklum þunga.

Borgir á borð við Bakhmut, Soledar, Maryinka og Kreminna hafi sætt linnulausum árásum og Rússar til að mynda gjöreyðilagt Bakhmut í Donbas. Úkraínski herinn berst nú við Rússa í Donetsk og Luhansk, sem Vladímír Pútín Rússlandsforseti innlimaði ólöglega í september.
Mestu átökin hafi verið í Bakhmut en Rússar hafi einblínt á þann stað eftir að Úkraínumenn náðu Kherson aftur á sitt vald í síðasta mánuði.
Á milli föstudags og laugardags greindi úkraínski herinn frá um tuttugu loftárásum og fleiri en sextíu flugskeytaárásum af hálfu Rússa, að því er kemur fram í frétt AP. Greint hafi verið frá árásum í Kharkív og Sumu í norðausturhluta landsins, Dnipropetrovsk miðsvæðis í Úkraínu, Saporísja í suðaustri og Kherson í suðri.