Ragnar Erling Hermannsson, sem er heimilislaus, sendi snemma á laugardag út neyðarkall þar sem útlit var fyrir að heimilislausum karlmönnum yrði vísað út á gaddinn í vonskuveðri. Svo fór að borgin virkjaði neyðaráætlun sína og voru neyðarskýlin opin alla helgina.
Staða heimilislausra á höfuðborgarsvæðinu hefur verið til mikillar umræðu síðustu daga, ekki síst eftir neyðarkall Ragnars. Fólk deildi til að mynda reynslusögum á Twitter og fjöldi fólks lagði samfélagi heimilislausra lið.
ÖMURLEGT!!! 😭😭😭 Að henda fólki út í svona veður vegna svo strangar reglna um opnunartíma gistiskíla. Það ætti vera sólarhrings opnun til að heimilislausir fái eithvað skjól í frosthörkuni.
— Magnfreð Ingi Jensson 🇺🇦🇺🇦🇺🇦🇺🇦 (@JenssonMaggi) December 17, 2022
Varð stuttu áður næstum úti því ég sofnaði óvart & vildi ekki að það gerðist aftur. Þá var leigubílstjóri sem fann mig & fór með mig í skjól. Man enn eftir þegar ég vaknaði & var að erfiða við að anda, fannst hjartað vera að bugast & hvað kuldinn var stingandi sársaukafullur 2/2
— Stefanía (@stefoskars) December 18, 2022
„Þetta eru strákar sem hafa aldrei á ævi sinni kynnst neinu öðru viðmóti en skömm og sektarkennd frá samfélaginu og það er eitthvað sem er algjörlega framandi fyrir þá að fara allt í einu að fá peningagjafir út úr bæ. Ég verð bara meyr þegar ég hugsa um hvað þeir voru ánægðir í gær og hvað þeir voru yndislegir, að sjá svipinn á þeim. Það er eitthvað að breytast,“ segir Ragnar í samtali við fréttastofu.
Um helgina hafi safnast hundrað þúsund krónur sem hafi nýst í snemmbúnar jólagjafir fyrir notendur gistiskýlisins.
Á morgun og þriðjudag er miklu hvassviðri spáð á öllum sunnan og vestanverðu landinu og allt að fimmtán stiga frosti næstu daga. Heimilislausir eru því enn í erfiðri stöðu, enda neyðarskýlin aðeins opin milli fimm síðdegis og tíu á morgnanna. Borgin hefur ekki enn tilkynnt hvort neyðaráætlun verði virkjuð og neyðarskýlin opnuð utan hefðbundins tíma næstu daga vegna veðurspárinnar.
„Ég vona að þau taki rétta ákvörðun af því ég er að bjóða þeim tvo möguleika. Leyfið þeim að vera inni, ætliði virkilega að setja þá út?“ spyr Ragnar.