Erlent

Fimm skotnir í „hrottalegri“ árás í Kanada

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Vaughan.
Lögregluþjónar að störfum í Vaughan. AP/Arlyn McAdorey

Fimm voru skotnir til bana í fjölbýlishúsi í úthverfi Toronto í Kanada í nótt. Árásarmaðurinn særði minnst einn til viðbótar en hann var svo skotinn til bana af lögregluþjónum. Lögreglan hefur lýst árásinni sem hrottalegri.

Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir en árásarmaðurinn er sagður hafa dáið eftir að hann var króaður af af lögregluþjónum, samkvæmt frétt Ríkisútvarps Kanada.

Svo virðist sem árásin hafi ekki verið bundin við eina íbúð í fjölbýlishúsinu, sem er í Vaughan. Lögreglan í bænum segir þó að lögregluþjónar hafi komið að hrottalegum vettvangi þar sem margir hafi verið skotnir. Ekki liggur fyrir hvernig byssu árásarmaðurinn notaði.

Einn lögregluþjónn sagði CNN að hann hefði aldrei tekið þátt í eins hræðilegu útkalli og þessu.

Lögregluþjónar fóru úr íbúð í íbúð til að ganga úr skugga um að árásarmennirnir væru ekki fleiri og rýma fjölbýlishúsið.

Árásir sem þessar eru sjaldgæfar í Kanada og íbúar Toronto hafa lengi stært sig af því að búa í einni öruggustu borg heimsins, samkvæmt AP fréttaveitunni. Kanadamenn hafa þó áhyggjur af því að skotárásum fari fjölgandi í takt við þróunina í Bandaríkjunum. Byssulöggjöf er þó mun strangari í Kanada en hún er í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×