Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, mun birta nýjan styrkleikalista næstkomandi fimmtudag. Þrátt fyrir að vera nýbúnir að tryggja sér heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu munu Argentínumenn þó aðeins sitja í öðru sæti listans, á eftir Brasilíumönnum sem munu tróna á toppnum.
Dale Johnson hjá ESPN er einn þeirra sem hefur reiknað út komandi lista, en hann bendir á að þar sem Argentína þurfti vítaspyrnukeppni til að sigra Frakkland í úrslitaleik HM fái liðið ekki nægilega mörg stig til að velta Brasilíumönnum úr sessi í efsta sæti listans.
Because the World Cup final was decided on penalties, and thus not a direct win for Argentina, that means...
— Dale Johnson (@DaleJohnsonESPN) December 18, 2022
Brazil stay No. 1 in the new FIFA World Ranking with Argentina No 2.
I'm not sure Argentina will be too bothered...#FIFAWorldCupFinal
Argentínska liðið sat í þriðja sæti listans fyrir heimsmeistaramótið sem kom út þann 6. október síðastliðinn. Liðið fer því upp fyrir Belga sem falla niður í fjórða sæti, en Frakkar lyfta sér einnig upp fyrir Belgíu á listanum.
Englendngar munu svo sitja í fimmta sæti listans, Hollendingar í því sjötta og bronslið Króata í sjöunda áður en Ítalir, Portúgalar og Spánverjar fylla upp í efstu tíu sæti listans.