Stjórnvöld í Norður-Kóreu neita sök.
Wagner málaliðahópurinn er handgengur Vladimir Pútín Rússlandsforseta en hefur meðal annars starfað í Sýrlandi og nokkrum Afríkuríkjum. Bardagamenn hópsins hafa látið til sín taka í Úkraínu síðustu mánuði, þar sem bresk stjórnvöld segja fjölda þeirra hafa farið úr um þúsund í 20 þúsund.
John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, sagði í gær að forsvarsmenn Wagner leituðu nú logandi ljósi að vopnum til að nota í Úkraínu. Þá sagðist hann geta staðfest að hópnum hefði þegar borist ein sending frá Norður-Kóreu, sem greitt var fyrir.
Um var að ræða sendingu af flugskeytum.
Kirby sagði stríðsrekstur Wagner í Úkraínu kosta um það bil 100 milljónir dala á mánuði og sagði afl hópsins nú jafnast á við rússneska herinn.
James Cleverly, utanríkisráðherra Bretlands, sagði þarlend stjórnvöld sammála mati Bandaríkjamanna en sú staðreynd að Pútín þyrfti að reiða sig á aðstoð Norður-Kóru væri til marks um einangrun hans og örvæntingu.
Yevgeny Prigozhin, stofnandi og eigandi Wagner, hefur neitað ásökunum Bandaríkjamanna og kallað þær slúður og getgátur. Þá neita stjórnvöld í Norður-Kóreu því sömuleiðis að hafa selt Wagner vopn.
Áhrif Prigozhin hafa vaxið mjög í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og er hann sagður hafa metnað til að klifra metorðastigann innan rússneskra stjórnamála. Hann er náin samstarfsmaður forsetans og var um tíma þekktur sem „kokkur Pútíns“, þar sem hann rak áður veitingastaði og -þjónustu sem var vinsæl meðal Kremlverja.