Manchester United vann góðan 3-0 sigur er liðið tók á móti nýliðum Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.
Heimamenn í United byrjuðu mun betur og Marcus Rashford kom liðinu í forystu á 19. mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Christian Eriksen. Rashford var svo aftur á ferðinni þegar hann lagði upp annað mark liðsins fyrir Anthony Martial þremur mínútum síðar.
Gestirnir héldu svo að þeir hefðu minnkað muninn þegar Ryan Yates kom boltanum í netið stuttu fyrir hálfleik, en eftir langa skoðun myndbandsdómara var markið dæmt af vegna rangstöðu.
Staðan var því 2-0, United í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Það var svo varamaðurinn Fred sem gulltryggði öruggan sigur heimamanna með marki á 87. mínútu, aðeins tíu mínútum eftir að hann hafði komið inn af varamannabekknum.
Niðurstaðan því öruggur 3-0 sigur United og liðið situr nú í fimmta sæti deildarinnar með 29 stig eftir 15 leiki, einu stigi á eftir Tottenham sem situr í fjórða og seinasta Meistaradeildarsætinu. Nottingham Forest situr hins vegar í næst neðsta sæti deildarinnar með 13 stig.