Marsch þekkir nokkuð vel til norksa framherjans, enda var hann þjálfari RB Salzburg er liðið keypti Haaland árið 2019. Hann segir að þessi tími sem þeir unnu saman muni hjálpa honum í að stilla upp sínu liði til að stöðva framherjann.
„Það mun örugglega hjálpa okkur aðeins. Það mun hjálpa honum þegar leikurinn byrjar, en það mun líka hjálpa mér,“ sagði Bandaríkjamaðurinn.
„Tíminn sem við unnum saman var frábær og ég átti mjög gott samband við Haaland.“
Haaland á líka tengingu við knattspyrnufélagið Leeds, en hann fæddist í borginni á meðan faðir hans, Alf-Inge Haaland, var leimmaður liðsins.
„Erling sendi mér skilaboð þegar leikjaniðurröðunin var birt og sagði mér að þetta væri leikurinn sem hann hlakkaði mest til og ég svaraði með því að gefa honum leyfi til að vera meiddur í þessum leik,“ sagði Marsch léttur.
Jesse Marsch has given Erling Haaland permission to be injured when Leeds face Man City 😂 pic.twitter.com/NRM7zhN6Ko
— ESPN UK (@ESPNUK) December 23, 2022
„En hann er fæddur hérna. Pabbi hans á sína sögu með liðinu og ég held að hann haldi mikið upp á liðið vegna þess. Við gerum ráð fyrir því að hann mæti hungraður í þennan leik og það getur valdið okkur vandræðum.“
„Ég veit vel hversu góður hann er og hversu góður hann getur verið þegar hann er upp á sitt besta. Það er virkilega mikilvægt fyrir okkur að halda honum í skefjum á morgun og ég hef verið spurður að því margoft hvernig maður gerir það.“
„Svarið við því er að þú þarft alltaf að vita hvar hann er og hvar hann vill vera. Hann hefur ótrúlega getu til að taka hlaup inn í boxið, sprettirnir upp völlinn í hröðum sóknum og það sem hann er tilbúinn að leggja á sig til að vera í kringum markið til að klára sóknir. Hann er yfirleitt ekki leikmaðurinn sem er að byrja sóknir, en hann er alltaf að hugsa um hvar hann á að vera svo hann geti bundið enda á þær,“ sagði Marsch að lokum.