Þúsundir hafa tekið þátt í mótmælum í Íran sem hófust eftir að 22 ára kona lést í haldi siðgæðislögreglunnar þar í landi. Konan hét Mahsa Jina Amini og var sökuð um að bera höfuðklút sinn ekki á viðeigandi máta og var handtekin í kjölfarið. Mótmæli vegna andláts hennar hafa staðið yfir síðan um miðjan september.
Tveir hafa nú þegar verið teknir af lífi fyrir að taka þátt í mótmælunum. Aukin harka virtist færast yfir þegar greint var frá því að mikill meirihluti íranska þingsins hefði skrifað undir opið bréf sem hvatti dómarastétt landsins til þess að beita mótmælendur meiri hörku.
Fram kom að 227 af 290 þingmönnum hafi undirritað bréfið.
Nú greina mannréttindasamtökin „Iran Human Rights“, sem staðsett eru í Osló í Noregi að í það minnsta hundrað manns sem handteknir hafi verið í tengslum við mótmælin eigi nú yfir höfði sér ákærur sem geti haft dauðadóm í för með sér. Þetta kemur fram í umfjöllun Guardian.
Þá hafi að minnsta kosti ellefu úr þessum hundrað manna hópi þegar verið dæmd til dauða.
Þau sem eigi dauðadóm yfir höfði sér hafi lítinn möguleika á aðstoð og ekki greiðan aðgang að lögfræðiþjónustu. Þá séu dauðadómarnir notaðir til þess að hræða mótmælendur og fæla þá frá því að taka þátt.
Greint er frá því að karlmennirnir tveir sem hafi þegar verið teknir af lífi vegna mótmælanna hafi báðir verið 23 ára gamlir.
Mannréttindasamtökin segja nú 476 mótmælendur hafa látið lífið í átökunum en í nóvember greindu Sameinuðu þjóðirnar frá því að að minnsta kosti 14 þúsund manns hafi verið handtekin vegna mótmælanna síðan þau hófust.