Chelsea hefur nú þegar samið um kaup og kjör við Badiashile sem skrifar undir langtímasamning við lærisveina Graham Potter. Framundan er læknisskoðun hjá Lundúnaliðinu áður en formlega verður gengið frá félagaskiptunum.
Chelsea hefur verið að leita að miðverði eftir að Antonio Rudiger og Anders Christiansen yfirgáfu félagið á frjálsri sölu í sumar og verið orðaðir við Króatann Josko Gvardiol og Evan N´Dicka leikmann Frankfurt.
Badiashile er tuttugu og eins árs gamall, rúmlega 1,90 metrar á hæð, fljótur og góður með boltann í fótunum. Hann á að baki tvo landsleiki fyrir Frakka en var ekki í landsliðshópnum á heimsmeistaramótinu í Katar.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Badiashile nú þegar leikið 135 leiki fyrir Mónakó og vakið mikla athygli.