Fram kom í fréttum Stöðvar 2 að hvalkjötinu hafi verið skipað um borð í erlent flutningaskip í Hafnarfjarðarhöfn nokkrum dögum fyrir jól og voru þetta tæplega þrjú þúsund tonn. Engar upplýsingar hafa þó fengist frá Hval hf. um útflutninginn og er greinilegt að þar á bæ vilja menn hafa sem fæst orð um ferðir skipsins.
Við náðum á Kristján Loftsson í höfuðstöðvum Hvals í Hafnarfirði í dag, eftir að hafa ítrekað óskað eftir viðtali um málið, en viðbrögð hans voru að loka hurðinni á okkur um leið og hann sagðist vera upptekinn.

Heimildarmenn fréttastofu segja að kaupendur í Japan hafi ekki aðeins viljað fá allt kjöt sem fékkst á vertíðinni síðastliðið sumar heldur einnig eldri birgðir og hafi allar frystigeymslur verið hreinsaðar út af hvalkjöti, svo mikil hafi ásóknin verið.
Forstjóri Hvals kvaðst raunar við upphaf hvalvertíðar síðastliðið sumar engar áhyggjur hafa af markaði fyrir kjötið.
„Það er ekkert vesen með það,“ sagði Kristján Loftsson í viðtali í Reykjavíkurhöfn þann 22. júní síðastliðinn.
Og vart er við öðru að búast en að stefnt verði á hvalvertíð aftur í sumar miðað við hvað sala hvalkjötsins virðist hafa tekist vel að þessu sinni.
Það eru að verða þrjár vikur frá því flutningaskipið lét úr höfn í Hafnarfirði. Okkur er sagt að skipið sé með næga olíu um borð til að komast með farminn alla leið til áfangastaðar í Japan.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: