Portúgal vann Ungverjaland örugglega í lokaleik D-riðils heimsmeistaramótsins í handbolta karla. Portúgal gekk í raun frá leiknum í upphafi með frábærri byrjun, lokatölur 27-20 sem þýðir að Ísland endar í 2. sæti D-riðils.
Það dró til tíðinda á fyrstu mínútu þegar Adrian Sipos, leikmaður Ungverja, fékk beint rautt spjald. Það sló liðsfélaga hans svo sannarlega út af laginu þar sem Ungverjar sáu ekki til sólar eftir rauða spjaldið.

Vörn og markvarsla Portúgals var nánast fullkomin í fyrri hálfleik. Ungverjaland skoraði aðeins tvö mörk á átján mínútum. Miguel Ferreira, markmaður Portúgals, skellti í lás strax í upphafi leiks og var lengi vel með yfir áttatíu prósent markvörslu í fyrri hálfleik. Miguel Ferriera var einnig öflugur í seinni hálfleik og endaði með 15 varin skot.
Portúgal var sjö mörkum yfir í hálfleik 16-9.
Portugal 16-9 Hungary
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) January 16, 2023
Lowest amount of goals by Hungary in a half at a World Championship since 2013 (8 goals in 2nd half versus Spain).#handball
Klaufagangur Ungverja hélt áfram í síðari hálfleik. Tæknifeilar Ungverja reyndust dýrir og í hvert skipti sem Ungverjar gátu sett pressu á Portúgal þá kom lélegt skot, tvígrip, skref eða ruðningur. Spilamennska Ungverja í kvöld gerir tapið hjá Íslandi gegn þeim enn grátlegra.

Það mátti ekki miklu muna að Ísland myndi lenda í efsta sæti riðilsins en það munaði aðeins einu marki. Það er hægt að telja ansi marga möguleika í leiknum þar sem Ungverjar misnotuðu dauðafæri. Leikurinn endaði með sjö marka sigri Portúgals 27-20.
