Rætt var við Óskar Reykdalsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Hann segir að samskiptum hafi fjölgað töluvert á hvern lækni á undanförnum árum. „Til dæmis frá árinu 2017 voru læknar að taka kannski 80 eða 85 samskipti, núna eru þeir að taka 115 til 120 í hverri viku. Þetta er töluverð aukning. Þessi viðbót kemur langt mest með rafrænum samskiptum. Svo það er sannarlega aukið álag á lækna“, segir Óskar.
Óskar segir að í sumum tilfellum sé hreinlega verið að sóa tíma lækna með þessum rafrænu samskiptum, til dæmis með því að skrifa upp á vottorð og með samskiptum í gegnum Heilsuveru.
„Við sem erum heilsugæslulæknar teljum að það þurfi að fækka ákveðnum vottorðum, og að til dæmis skóla- og vinnuveitendavottorð séu ofmetin. Við teljum að tilvísanir, vegna barna eða til sjúkraþjálfara megi missa sín.“
Það eru alls konar þættir sem hægt er að vinna með og þar af leiðandi fækka samskiptum og þannig velja úr og forgangsraða verkefnum sem eru mikilvægust, sem eru mjög veikir skjólstæðingar.
Það eru alls konar þættir sem hægt er að vinna með og þar af leiðandi fækka samskiptum og þannig velja úr og forgangsraða verkefnum sem eru mikilvægust, sem eru mjög veikir skjólstæðingar.
Óskar telur að lausnin sé falin í því að vinna og standa saman, skoða nákvæmlega og greina hvar flöskuhálsarnir séu. „Vinna síðan með hvern og einn þátt og þannig bæta möguleikann á því að líða vel í vinunni og komast vel yfir þau verkefni að sinna þessum veika skjólstæðingahópi,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á Höfuðborgarsvæðinu.