Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir þetta í samtali við Vísi. Hún segir að tekist hafi að tæma eina vél og að ein hafi komist inn áður en veðrið skall á í morgun.
Farþegar vélanna sex hafa flestir þurft að dúsa úti á flugbraut síðan um klukkan sex í morgun. Ásdís segir að áhafnarmeðlimir séu þrautþjálfaðir í að takast á við aðstæður sem þessar og að verið sé að gefa farþegum mat og drykki, allavega á meðan birgðir endast.
Icelandair leiðir aðgerðir á Keflavíkurflugvelli í samstarfi við björgunarsveitir og Isavia. Ásdís segir að því miður sé staðan á vellinum svo slæm að ekkert sé hægt að aðhafast í augnablikinu. Nú sé einfaldlega verið að bíða þar til veðrið lægir.