Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags, óskaði í síðustu viku eftir fundi með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA). Fundurinn átti að fara fram í dag en vegna veðurs var flugi ráðherrans til Kaupmannahafnar flýtt og fundinum frestað.
Í gær sagði Sólveig að hún krefðist þess að ráðherra myndi beita sér gegn miðlunartillögunni. Ríkissáttasemjari vill leggja tillögu sína í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Eflingar en félagið hefur ekki viljað afhenda kjörskrá. Sáttasemjari leitaði á föstudag til héraðsdóms til að fá gögnin afhent og tekur héraðsdómur beiðni sáttasemjara fyrir í dag.
Í samtali við RÚV segist Guðmundur ekki ætla að beita sér fyrir því að ríkissáttasemjari dragi miðlunartillöguna til baka. Hann segir að embættið sé sjálfstætt í sínum störfum og að hann beri fullt traust til ríkissáttasemjara í deilum Eflingar og SA, sem og í öðrum verkefnum embættisins.

Þá mun hann ekki beita sér fyrir því að ríkissáttasemjari komi ekki meira að viðræðunum líkt og stjórn Eflingar hafði krafist.