Innlent

Þröstur Helga­son hættir sem dag­skrár­stjóri Rásar 1

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þröstur Helgason
Þröstur Helgason

Þröstur Helgason hættir sem dagskrárstjóri Rásar 1 næstu mánaðamót. Ríkisútvarpið greinir frá þessu og vísar til fundar Þrastar með starfsmönnum rásarinnar í morgun.

Þröstur hefur gegnt dagskrárstjórn á Rás 1 í nærri níu ár, eða frá 1. apríl 2014.

Fram kom á Vísi árið 2018 að vinnusálfræðingur hefði verið fenginn til að fara yfir samskipti á vinnustað með starfsmönnum Rásar 1. Þá var nýlokið könnun á viðhorfum starfsmanna gagnvart stofnuninni og kom á daginn að á flestum deildum stofnunarinnar var ánægja ríkjandi. Þó kom í ljós óánægja meðal starfsmanna á Rás 1 en þar voru fastir starfsmenn í kringum á þriðja tug auk lausafólks.

Vísir ræddi við nokkra starfsmenn á RÚV á þeim tíma sem lýstu þessu sem heldur hvimleiðri kvöð, að sitja undir glærusýningum og fundi með vinnustaðasálfræðingum til að fara vandlega í saumana á samskiptum á vinnustað. Einkum þar sem þeir töldu vandann aðeins snúa að Þresti. Hann þætti ekki mjög lipur í mannlegum samskiptum.

Þröst­ur er með BA-gráðu í ís­lensku og meist­ara­gráðu í ís­lensk­um bók­mennt­um frá Há­skóla Íslands. Þá varð hann doktor í almennri bókmenntafræði við íslensku- og menningardeild HÍ vorið 2015. Ritgerð hans nefndist Tímaritið Birtingur og íslenskur módernismi. Lítil tímarit, landfræði, menningarsaga.

Þröst­ur var rit­stjóri Les­bók­ar Morg­un­blaðsins um átta ára skeið og hef­ur starfað sem stunda­kenn­ari, þátta­gerðarmaður og bók­mennta­gagn­rýn­andi.

Ekki náðist í Þröst við vinnslu fréttarinnar.

Fréttin var uppfærð klukkan 13:52. Í fyrri útgáfu var haft eftir Heimildinni að Þröstur hefði vísað til þess að mat starfsmanna hefði haft áhrif á ákvörðun hans. Þetta hefur verið leiðrétt í frétt Heimildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×