Al-Hilal kom mörgum á óvart með því að slá út brasilíska félagið Flamengo í undanúrslitaleiknum og framundan er úrslitaleikur um komandi helgi á móti annað hvort Real Madrid eða Al Ahly.
Al-Hilal beat Flamengo to head to the Club World Cup final pic.twitter.com/zIpKoGm4hM
— B/R Football (@brfootball) February 7, 2023
Al-Hilal vann undanúrslitaleikinn 3-2 eftir að hafa komist 3-1 yfir og endað leikinn ellefu á móti tíu.
Hetja Al-Hilal liðsins var Salem Al Dawsari sem hafði einnig komið sér í fréttirnar á HM í Katar í lok síðasta árs.
Sádarnir halda nefnilega áfram að koma á óvart í fótboltanum. Al Dawsari skoraði einmitt sigurmark Sádí-Arabíu á móti verðandi heimsmeisturum Argentínu í nóvember í fyrsta leik þjóðanna á HM í Katar.
Að þessu sinni skoraði Al Dawsari úr tveimur vítaspyrnum auk þess að leggja upp þriðja markið fyrir liðsfélaga sinn Luciano Vietto.
Flamengo komst beint í úrslitaleikinn sem fulltrúi liða frá Suður-Ameríku en Al-Hilal sló Wydad Casablanca frá Marokkó út í annarri umferð þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í vítakeppni.
Wydad Casablanca var 1-0 yfir í leiknum en Al-Hilal tryggði sér framlengingu með jöfnunarmarki úr vítaspyrn á fjórðu mínútu í uppbótatíma.
Það er því stutt á milli í þessu og Al-Hilal fær nú tækifæri á að spila úrslitaleik á móti mögulega Evrópumeisturum Real Madrid. Undanúrslitaleikur Real Madrid liðsins fer fram í dag.
Saudi billionaire Prince Al Waleed bin Talal Al Saud has pledged one million Saudi Riyal (£222k) to each Al-Hilal player for reaching the Club World Cup Final and a further one million if they win the tournament. pic.twitter.com/Lo6gOiPjlo
— Ben Jacobs (@JacobsBen) February 7, 2023
Talið er víst að leikmenn Al-Hilal fái mjög veglegan bónus fyrir það að koma liðinu í úrslitaleikinn en það vantar ekki peningana hjá olíufurstunum í Sádí Arabíu.
Þeir gætu hver og einn fengið milljón ríal fyrir það en það jafngildir um 38 milljónum íslenskra króna. Ekki slæmur bónus það.